Eurovision er á næsta leiti og búið er að afhjúpa hvaða tólf lög keppa í undankeppni RÚV með þá von að vinna flugmiða til Úkraínu og taka þátt í Eurovision fyrir Íslands hönd.

Starfsmaðurinn okkar, hún Lilja Katrín, er mikill Eurovision-aðdáandi og lét gamlan draum rætast í fyrra þegar hún fór á keppnina í Stokkhólmi í Svíþjóð. Hún er búin að stúdera öll lögin sem keppa í forkeppnum RÚV 25. febrúar og 4. mars en úrslitin verða ljós 11. mars. Við gefum Lilju orðið!

Eurovision-spá Vefgerðarinnar

Bammbaramm
Flytjandi: Hildur Kristín Stefánsdóttir

Hér er á ferð söngkona sem er líklegast þekktust fyrir lagið I’ll Walk With You. Það fer ekkert á milli máli. Bammbaramm er mjög líkt fyrrnefndum slagara. Lagið er talsvert betra á ensku en íslensku og á líklegast eftir að komast í úrslit. Það vinnur þó ekki. Aðeins of hægt og óspennandi.

Ég veit það
Flytjandi: Svala Björgvinsdóttir

Flestir hér á fésinu sem ég þekki eru nokkuð vissir um að Svala taki þetta í ár og keppi fyrir Íslands hönd í Úkraínu. Ég er ekki sammála. Hún kemst vissulega áfram enda búin að splæsa saman alls konar vinsælum Eurovision-elementum í þetta lag. En ég bjóst við meiru af henni. Held samt að sviðsframkoman hennar verði epísk. Hún kemst í einvígið.

Þú og ég
Flytjendur: Páll Rósinkranz og Kristina Bærendsen

Kántrískotin ballaða sem maður bíður eiginlega eftir því að sé búin. Svona klósettpásulag. Þó flytjendurnir báðir séu þrususöngvarar ná þeir ekki að bjarga þessu lagi upp úr undankeppninni.

Mér við hlið
Flytjandi: Rúnar Eff Rúnarsson

Hingað til hefur handboltarokk í anda Creed ekki átt góðu gengi að fagna í Eurovision þannig að þetta var eiginlega búið hjá Rúnari Eff áður en hann byrjaði. Sorrí.

Heim til þín
Flytjendur: Júlí Heiðar Halldórsson og Þórdís Birna Borgarsdóttir

Mumford and Sons-legt lag sem kemst pottþétt upp úr undankeppninni en ekkert lengra en það. Ágætis lag, fínir flytjendur og passlega grípandi. En sirka tveimur árum of seint í þessa keppni.

Ástfangin
Flytjandi: Linda Hartmanns

Linda er fáránlega lík ríkjandi Eurovision-sigurvegara, Jamölu! Hún fær plús fyrir að vera ekki aðeins dramatísk eins og Jamala vinkona okkar heldur líka tvífari hennar. Lagið er fínasta ballaða og Linda kemst upp úr undankeppninni ef hún setur gott power í flutninginn í beinni a la Bonnie Tyler.

Treystu á mig
Flytjandi: Sólveig Ásgeirsdóttir

Nú er einhver búinn að hlusta aðeins of mikið á írsku systkinin í The Corrs. Þetta sánd er aðeins of næntís fyrir mig. Sólveig er flott stelpa en ég held að hún komist ekki upp úr undankeppninni með þetta lag.

Skuggamynd 

Flytjandi: Erna Mist Pétursdóttir

Ég tek hattinn ofan fyrir þessari stúlku sem ég hef aldrei séð áður. Bara 18 ára og búin að semja þetta fínasta lag. Og að taka þátt í Eurovision. Vel gert! Ef hún þrumar þessu út úr sér hnökralaust á sviðinu gæti hún komist áfram.

Þú hefur dáleitt mig
Flytjandi: Aron Brink

Hér er sigurvegarinn kominn að mínu mati. Ég féll alveg fyrir Aroni í The Voice og hélt mikið með honum. Hér er á ferð hressandi stuðlag sem er afskaplega grípandi. Hann þarf að stilla taugarnar og ná að slaka nógu vel á á sviðinu svo sjarminn hans skíni í gegn. Þá er flugmiðinn til Úkraínu vís.

Hvað með það?
Flytjandi: Daði Freyr Pétursson

Hér er á ferð flytjandi sem kom mér hvað mest á óvart. Ansi hreint gott lag og frábrugðið öðrum í keppninni. Þessi kemst í undanúrslit og á örugglega eftir að láta meira að sér kveða.

Nótt
Flytjandi: Aron Hannes Emilsson

Aron er vanur að koma fram, hafandi tekið þátt bæði í Ísland Got Talent og Jólastjörnu Björgvins, en hann bar sigur úr býtum í síðarnefndu keppninni. Aron er fantagóður söngvari þegar hann tekur sig til en þetta lag er aðeins of stolið frá Justin Bieber fyrir minn smekk. En Aron kemst líklegast í undanúrslit á sönghæfileikum og fær viðurnefnið Aron Bieber í kaupbæti.

Til mín
Flytjendur: Arnar Jónsson og Rakel Pálsdóttir

Hér vantar alla dramatík. Frekar dauft lag sem er synd því báðir flytjendurnir eru afskaplega frambærilegir. Þessi dúett kemst ekki áfram í undanúrslit.