Það var heldur betur krefjandi verkefni sem kom upp í hendurnar á tveimur starfsmönnum Vefgerðarinnar fyrir einu og hálfu ári – að endurhanna ferðaþjónustuvefsíðu fyrir þau lönd sem eiga landamæri að Mekong-ánni; Kambódíu, Kína, Laos, Myanmar, Taíland og Víetnam. Útkoman er vefsíðan Mekong Tourism.

Nú tveimur árum síðar, mörgum mánuðum eftir að verkefnið kláraðist, getum við stolt sagt frá því að síðan hefur unnið til tveggja, stórra verðlauna í ferðabransanum.

Um síðustu áramót fékk síðan HSMAI Adrian-verðlaunin fyrir nýstárlega vefsíðuhönnun og framúrskarandi markaðsstarf. Eru verðlaunin ein sú virtustu í heiminum þegar kemur að ferðaþjónustuiðnaðinum og haldin af Hospitality Sales & Marketing Association International, alþjóðlegum ferðaþjónustusamtökum.

En gleðin hætti ekki þar. Ó, nei.

Nú á dögunum fékk síðan verðlaun sem besta vefsíðan á árlegu PATA Gold-verðlaunahátíðinni sem haldin var í Indónesíu. PATA eru ferðaþjónustusamtök í Asíu og telur dómnefnd þeirra af atvinnumönnum í ferðaþjónustuiðnaðinum að vefsíðan hvetji til ábyrgrar ferðaþjónustu á Mekong-svæðinu.

Stolt nær ekki að lýsa þeirri tilfinningu sem hríslast um okkur núna yfir þessu æðislega verkefni. Þvílíkur heiður að fá að taka þátt í svona ævintýri.