Lögin sem keppa í undankeppni Söngvakeppninnar árið 2018 voru kynnt síðasta föstudagskvöld og auðvitað er hún Lilja okkar búin að hlaða í eitt stykki Eurovision spá.

Lilja var reyndar ekki sannspá í Eurovision spánni í fyrra en náði þó samt að spá því að hann Daði Freyr yrði dökkur hestur í keppninni og ætti eftir að láta meira að sér kveða.

Við gefum Lilja orðið, en hún er á því að keppnin í ár verði mjög hörð og erfitt að spá um hver verður fulltrúi Íslands í Lissabon í maí.

Svaka stuð

Hér er á ferð svakalegt stuðlag, eins og titillinn gefur til kynna, og Stefanía Svavarsdóttir er náttúrulega þrususöngkona. Ég hlakka rosalega mikið til að sjá þennan flutning á stóra sviðinu og textinn er bæði góður á íslensku og ensku. Þetta lag á eflaust eftir að komast upp úr undanriðlinum en ég veit ekki hvort það sigrar. Það veltur allt á flutningi í beinni útsendingu.

Ég og þú

Þetta lag minnir mig svo á lögin sem Glen Hansard og Markéta Irglová hafa sungið saman, sem má hlýða á í yndislegu bíómyndinni Once. Virkilega fallegt lag og söngvararnir Sólborg og Tómas alveg fáránlega sjarmerandi. Mig langar að hlusta á þetta aftur og aftur og aftur. Mér finnst það eiginlega fallegra á íslensku en mjög vel gert á ensku líka. Þetta lag gæti klárlega blandað sér í toppbaráttuna og spái ég því að það verði dökki hesturinn, líkt og Daði Freyr var í fyrra.

Ég mun skína

Þórunn Antonía er náttúrulega með algjörlega sjúka rödd. Hún er ein af þeim sem gæti sungið símaskrána og maður myndi samt fá gæsahúð. Ekki alveg sannfærð með lagið en held að hún eigi eftir að rústa flutningi í beinni. Mér finnst textinn flottari á ensku og er mjög spennt að sjá hvernig þessi flutningur verður sviðsettur. Annað sterkt lag sem á fullt erindi í toppbaráttuna.

Óskin mín

Rakel tók þátt í fyrra með Arnari Jónssyni með lagið Til mín. Ég var alls ekki hrifin af því lagi en ég varð algjörlega ástfangin af röddinni hennar Rakel. Í ár flytur hún hugljúfa ballöðu sem texta- og lagahöfundurinn Hallgrímur Bergsson samdi um afabarnið sitt. Ofboðslega fallegt lag sem á eflaust eftir að verða vinsælt í ýmsum mannfögnuðum en ég veit ekki hvort það nær langt í Eurovision. Klárlega flottara á íslensku.

Heim

Ari Ólafsson er í einu orði sagt dásamlegur. Það er nettur Josh Groban í þessum strák og ég hlakka til að sjá hann í beinni útsendingu. Snoturt lag sem ég held að eigi eftir að koma á óvart og ná langt.

Litir

Fínt lag og mjög útvarpsvænt en ég held að það eigi eftir að gleymast í beinni útsendingu, einfaldlega út af því að undankeppnin í ár er mjög sterk. Íslenski textinn ekkert spes en sá enski talsvert betri.

Kúst og fæjó

Ókei, vá hvað ég elska þetta lag ofboðslega mikið! Sveitin Heimilistónar er náttúrulega þjóðargersemi og ég er svo sjúklega hamingjusöm að hún taki þátt í Eurovision. Mikið var! Það er erfitt að spá fyrir um sigurvegara í ár en ég vona svo innilega að Heimilistónar taki þetta. Lagið er hressandi, textinn skemmtilegur, einlægur og fyndinn og þær fjórar stöllur eru náttúrulega dásamlegar. Áfram Heimilistónar!

Aldrei gefast upp

Ég veit að sveitin heitir Fókus hópurinn en gátu þau ekki bara farið alla leið og skírt sveitina S Klúbbur 7? Þetta er náttúrulega eiginlega copy/paste dæmi. Og ég elska það pínu, enda annálaður aðdáandi breskra stúlkna- og drengjasveita. Ef þau rústa flutningi í beinni útsendingu gæti okkar S Klúbbur 7 gert stóra hluti – jafnvel komist í einvígi. Lagið er nefnilega frekar nett og massa kraftur í þessu sem vonandi skilar sér heim í stofu. Svo er það stór plús að þetta lag festist á heilanum á manni eftir eina hlustun og mig langar pínu að standa upp í hvert sinn sem ég heyri það og kýla í loftið með óútskýrðan glampa í augunum.

Í stormi

Það var mikið að einhver fékk Dag Sigurðarson, einn okkar allra besta söngvara, til að taka þátt í Eurovision. Og þetta lag er ekta Meatloaf-ballaða sem hann hlýtur að mastera í beinni útsendingu. Ég bara trúi ekki öðru! Þetta verður eitthvað epískt gæsahúðarmóment og ég er eiginlega strax farin að kvíða fyrir því ég er nokkuð viss um að ég á eftir að fara að skæla. Sorrí Dagur, þú bara hefur þessi áhrif á mig!

Hér með þér

Ókei, mér finnst textinn í þessu lagi skuggalega líkur Áttu-smellinum Nei, nei, nei á köflum. Spurning hvort Áttan sé að reyna að endurgera vinsældir þess lags, en ég efast um að þetta lag komist mjög langt í Eurovision. Mér finnst það einfaldlega aðeins of óspennandi og textinn frekar bragðdaufur, þó þau Egill og Sonja séu ofboðsleg krútt og sjarmerandi persónur.

Golddigger

Sko, ég hef nú sagt það margoft opinberlega að mér finnst Aron Hannes algjör æðibiti en, já það þarf alltaf að vera en, þetta lag er bara ekki að gera sig. Ég vildi svo að hann hefði tekið eitthvað annað lag að sér því þessi texti er bara út í hött. Mér persónulega finnst hann bara asnalegur. Lagið er hressandi og grípandi en textinn dregur það algjörlega niður að mínu mati. Eins og til dæmis þetta brot:

þú brosir til mín um leið og þú heldur áfram að eyða
já að eyða
Með brosi dáleiðir mig og um leið þá verð ég bleyða
ég verð bleyða

Nei, hættu nú alveg!

Brosa

Annað ágætislag og söngvararnir Gyða og Þórir voðalegar krúttsprengjur. En ég efast stórlega um að þetta lag eigi eftir að gera eitthvað svakalega mikið í þessari keppni. Því miður eru bara mörg önnur lög sem eru miklu sterkari og ég held að þetta lag eigi eftir að falla í gleymskunnar dá. Sorrí með mig.