Þetta hefur verið viðburðaríkt ár hjá Pipp. Eitt stærsta verkefni sem við tókum að okkur var heimildarþáttagerð fyrir efnisveituna Netflix og breska grínistann Ricky Gervais.

Það var ég sem skrifa þetta blogg, Lilja Katrín, sem fékk það frábæra tækifæri að vinna fyrir Ricky Gervais að sérstökum heimildarþætti um nýjasta grínferðalag hans, Humanity Tour. Ég get eiginlega ekki líst því í orðum hve stór draumur var að rætast með því verkefni en ég hef verið aðdáandi grínistans síðan þættirnir The Office fóru í sýningu árið 2001.

Ég hef fylgst með Ricky Gervais allar götur síðan og á ég í dag gott safn af efni sem hann hefur komið að, hvort sem það er í sjónvarpi, bíómyndum eða uppistandi. Hjartað í mér stoppaði því þegar ég heyrði að grínarinn myndi heiðra Íslendinga með nærveru sinni með uppistandinu Humanity í Hörpu 20. og 21. apríl. Ég reyndi hvað ég gat að fá miða þegar þeir fóru í sölu en allt kom fyrir ekki – ég missti af miðunum. Þvílík vonbrigði fylgdu í kjölfarið og ég trúði því ekki að ég hefði misst af þessu tækifæri.

Nokkrum dögum fyrir uppistandið birtist mér engill í mannsmynd, framleiðandinn Helga Einarsdóttir. Helgu hafði ég kynnst þegar við unnum saman jólaþætti á ÍNN. Helga sagði mér í framhjáhlaupi að hún hefði verið ráðin af framleiðslufyrirtæki Rickys til að taka upp aukaefni fyrir Humanity uppistandið á Íslandi. Í gríni spurði ég hvort hún þyrfti ekki aðstoðarkonu. “Jú,” sagði Helga og þá var ég ekki lengi að sækja um starfið. Helga réð mig á staðnum og var það upphafið að ævintýri sem við hefðum aldrei getað séð fyrir.

Ricky Gervais er að hlæja!

Við mættum í Hörpu 20. apríl og fengum að horfa á uppistandið, sem er eitt af því besta sem Ricky Gervais hefur gert. Daginn eftir flökkuðum við um Reykjavíkurborg til að taka upp myndefni úr borginni og seinnipartinn komum við okkur fyrir í Hörpu, með alls kyns græjur fyrir kvöldið. Við áttum nefnilega að taka upp viðtöl við áhorfendur fyrir og eftir uppistandið. Við plöntuðum okkur í búningsherbergi, nokkrum skrefum frá búningsherbergi Rickys. Ég var ekki búin að gera mér neinar vonir um að hitta kappann en svo allt í einu heyrði ég það: Hláturinn hans. Þennan smitandi hlátur sem ég hafði svo oft heyrt. Nú var hann ekki í sjónvarpinu fyrir framan mig heldur nokkrum metrum frá mér. Næst kom aðstoðarmaðurinn hans til okkar og spurði hvort við gætum mögulega tekið upp smá viðtal við hann. Þá rann allt blóðið úr hausnum á mér og ég átti erfitt með að koma upp einu einasta orði.

Er ég labbaði á móti þessum manni sem hafði verið átrúnaðargoðið mitt í öll þessi ár missti ég alla tilfinningu í líkama mínum. Ég bara starði á hann. Þarna var hann bara fyrir framan mig. Ég hafði látið mig dreyma um þessa stund oft áður. Hvað ég myndi segja, hvernig ég myndi vera, hvernig persóna hann væri. Hann vinkaði og sagði “Hi”. Ég vinkaði og sagði ekkert. Ég gat ekkert sagt. Ég bara starði, mjög vandræðalega á hann. Og hann var svo næs. Svo endalaust almennilegur. Byrjaði bara að tjatta um daginn og veginn og að hann hefði farið í mat til forsetans. Og í staðinn fyrir að kinka bara kolli og brosa þurfti ég að sjálfsögðu að spyrja hvað hann hefði fengið að borða. Eins og það skipti einhverju máli?! Vá, hvað mér leið eins og miklu flóni.

Breiðholtsbolurinn drekkur vín með Ricky Gervais

Eftir uppistandið, þegar við Helga vorum búin að taka viðtal við fullt af Íslendingum og fá þeirra viðbrögð eftir sjóið, fórum við baksviðs í Hörpu til að taka saman græjurnar okkar. Og þar sat hann bara í almenningsrýminu með konunni sinni, Jane. Þau voru að drekka vín. Byrjuðu að spjalla. Buðu okkur sæti og hvort við vildum ekki fá okkur drykk. Í hvaða veröld var ég komin?! Geggjaðri veröld greinilega þar sem ég fékk að drekka vín með Ricky Gervais. Hve brjálað er það?!

Síðan kvöddumst við, en fyrst þurfti ég að fá af mér mynd með honum. Ég átti auðvitað aldrei eftir að hitta hann aftur. Eða það hélt ég þá.

Dagarnir liðu í sæluvímu og ég var svo þakklát Helgu að hafa geifð mér þetta tækfiæri á að hitta mann sem ég hafði dýrkað og dáð í öll þessi ár. Og síðan gerðist hið ótrúlega. Við fengum tölvupóst þar sem við vorum beðnar um að koma til Osló, Stokkhólms og Kaupmannahafnar að fylgja kappanum eftir þar líka. Var þetta í alvörunni að gerast? Var ég aðf á borgað fyrir að hlæja með Ricky Gervais aftur og aftur og aftur? Stutta svarið er: Já!

Það varð alltaf auðveldara og auðveldara að hitta Ricky. Smám saman náði ég að halda kúlinu og í síðustu ferðinni okkar til Kaupmannahafnar var þetta allt í einu orðið semi-eðlilegt. Ég þurfti að festa á hann hljóðnema, sem þýddi að ég þurfti að koma við hann, fara inná bolinn hans og festa nælu á hann án þess að fríka út. Ég fékk að sitja með honum í búningsherberginu hans, taka viðtal við hann og reyna að hlæja ekki vandræðalega mikið að öllum bröndurunum hans.

Ekki síðasta skiptið

Þegar við svo kvöddum aðstoðarmanninn hans í síðasta sinn á bar í Kaupmannahöfn hvíslaði hann að mér: “This is not the last time”. Reglulega poppar þessi lína uppí hausinn á mér og ég bíð eftir deginum þar sem ég fæ símtalið frá Helgu um að við séum að fara til útlanda aftur að hanga með Ricky Gervais. Þangað til það gerist held ég rembingsfast í allar æðislegu minningarnar frá þessum tíma þar sem einn af mínu æðstu draumum rættist.

Takk fyrir mig herra Ricky Gervais – þú ert enn þá stórkostlegri en ég þorði að vona!